Og vegferðin heldur áfram...

Nú eru þeim tólf vikum sem lífstílsbreytingin tók lokið, allavega svona opinberlega í samstarfi við Lilju einkaþjálfara.

Nú stend ég á mínum eigin fótum og er hvergi nærri hætt. Lokamælingar komu vel út og fór ég fram úr mínum markmiðum og er mjög sátt!

Núna skiptir öllu máli að halda rétt á spöðunum, passa sig að falla ekki í gömlu gryfjuna og halda áfram og stefna fast í átt að nýju markmiði. Það skiptir öllu máli að vera með markmið og setja sér raunhæfan tímaramma til að gera hlutina. Það er fátt jafn skemmtilegt og það veitir manni gífurlega ánægju og byr undir vængina þegar að maður nær sínum takmörkum. Ég hafði sett niður á blað kílóatölu og nokkra hluti eins og að komast í splitt, sem ég get, sem og að geta gert klapp armbeygju, get það reyndar bara á hnjánum en er að vinna í að verða eins og íþróttaálfurinn!

Það er svo gaman að finna fyrir því hvað líkaminn er orðinn sterkur og vinnur vel með mér í ræktinni, hann er alveg hættur að "væla" á mig en minnir mig einstaka sinnum á hvar mörkin mín liggja. Þá er það andlega hliðin, hún þarf líka að fylgja á eftir og viðurkenni ég alveg fúslega að ég er búin að vera góð við mig og nota afsakanir eins og snjóþyngsli fyrir því að fara ekki í ræktina. En maður er víst mannlegur og það kemur alveg að því að maður er bara þreyttur á líkama og sál. 

Það sem að hjálpar mér hvað mest þegar að mig vantar að rífa mig upp og koma mér í gang er tónlist! Ójá, elsku tónlistin! Það sem hún getur hjálpað! Hún spilar stórt hlutverk í mínu lífi. Ég spila á píanó og syng og fæ góða útrás við það.

Ég hef bæði í starfi mínu sem hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir hvatt skjólstæðinga til þess að hlusta á tónlist. Rannsóknir á áhrifum tónlistar hafa meðal annars leitt í ljós að hún hækkar streituþröskuld, örvar ímyndunaraflið, eykur slökunartilfinningu og hjálpar til við að hlutleysa neikvæðar tilfinningar. Hún hefur áhrif á öndunartíðni, blóðþrýsting og verkjaupplifun svo eitthvað sé nefnt. Flestir geta tengt tónlist við minningar og tilfinningar, jafnvel fengið okkur til að muna bragð, lykt eða nákvæma litasamsetningu fata frá ákveðinni kvöldstund. 

Þegar ég kem í ræktina er það partur af því að koma mér í gang, að kveikja á tækinu sem ég er á og að finna réttu tónlistina til að halda mér við efnið. Flestar líkamsræktarstöðvar bjóða upp á fría internettengingu og ég nota youtube til að hlusta og horfa á tónlistarmyndbönd meðan að ég æfi. Þá verða 50 mínútna brennslutími á stigvélinni einhvernvegin mikið fljótari að líða. Þar að auki finnst mér ég fá auka kraft þegar ég hlusta á lög sem að eru með góðu tempó-i.

Ég skal deila með ykkur playlistanum mínum í næstu færslu. 

En þangað til ætla ég að deila með ykkur uppáhalds pönnukökunum mínum. Ég geri tvær tegundir, önnur er hversdags og hina nota ég spari, hvet ykkur til að prófa þær! :)

 

Banókókóhafró

1 banani stappaður (helst þroskaður)

Lúkufylli af haframjöl

1 egg (vistvæn auðvitað ;))

1/2 tsk kanill

1 tsk kókosolía

Bananinn er stappaður og hræður saman með egginu, kanil og haframjölinu, kókosolían er brædd á pönnu og henni svo blandað saman við. Steikt á pönnu á meðalháum hita og snúið við þegar það koma loftbólur í gegn. Mér finnst betra að hafa þær frekar þykkar þá haldast þær betur saman. Svo má bæta við kókosolíu á pönnuna ef vantar. Ég borða þessar eintómar en þær eru góðar með smjöri og osti líka :)

 

Hollustupönnsur a la Helga Reynis :)(spari)

3-4 dl létt AB mjólk

2 dl haframjöl

1 dl spelt (fínt) eða hveiti

2 egg

1/2 tsk matarsódi

1/2 tsk salt

1 tsk lyftiduft

1-2 msk smjör

1 tsk vanilludropar

Öllu hrært saman, smjörið brætt á pönnu og hrært svo saman við deigið, steikt á meðal háum hita. Er mjög gott að bæta frosnum bláberjum í uppskriftina. Á mínu heimili borða ég þetta með afþýddum berjum, þetta er líka gott með smjör og osti. Dóttur minni þykir þetta best með hlynsírópi en það má einstaka sinnum á sunnudögum :)  


Erfiður tími framundan...

Það að leggja upp í svona ævintýri krefst viss aga, sjálfsaga sem ég vissi ekki að ég ætti til. Það er svo margt sem  gerist þegar maður fer að hugsa betur um sjálfan sig. Ég vil meina að ég sé mjög andlega heilbrigð ég er glaðvær og hávær, en mér líður svo margfalt betur andlega og líkamlega núna. Ég hef að undanförnu farið í hot yoga, þessir tímar eru yndislegir en uppáhald mitt við þessa tíma er slökunin í lokin. Í þessari slökun er ég þarna, ein með sjálfri mér og reyni útkljá það sem ég þarf að gera upp og ímynda mér að ég geti, eins og yogakennarinn segir, andað frá mér áhyggjum, pirringi eða einhverju því sem getur lagst á sálina. Fyrir vikið finnst mér ég vera endurnærð og sálin léttari, ég veit að þetta hljómar skringilega. Þó ég sé í barneignar"fríi" þá er svo gott að komast burt og hugsa um sjálfa sig þó það sé ekki nema í stutta stund á hverjum degi. 

Lífsstílsbreytingin gengur vel en eins og Lilja einkaþjálfari hefur verið að segja okkur þá lendir maður oft á vegg á þessum tíma. Vegg þar sem vigtin hleypur ekki eins hratt niður, tökin á mataræðinu geta farið að slakna og stundum koma dagar þar sem maður einfaldlega nennir ekki í ræktina. Ég hef átt nokkra svoleiðis daga undanfarið, nenni engan veginn í ræktina og langar bara að borða smákökur með dóttur minni og drekka heitt kakó með extra rjóma! Þessi tími sem núna er að ganga í garð er nefnilega erfiður þegar maður er að huga að næringunni en framundan hjá mér eru endalausir viðburðir þar sem matarsukk og víndrykkja kemur við sögu. Þá snýst þetta allt saman um að taka skynsamlegar ákvarðanir! Það er nefnilega alveg hægt að fara á jólahlaðborð og borða sig pakksaddan án þess að raða í sig hitaeiningaríku sukkfæði. Ég er búin að ákveða það að þar sem ég er að breyta um lífsstíl til frambúðar þá ég ætla að halda mig við það að sleppa sykri og sukki á virkum dögum og leyfa mér aðeins á laugardagskvöldum eða þegar tilefni er til. 

Það að fara í gegnum svona breytingu hefur áhrif á allan líkamann, andlegu hliðina, húðina og  líka fataskápinn. Þar sem ég eignaðist barn fyrir ekki svo löngu síðan, að mér finnst, þá er húðin á maganum á mér ennþá svolítið slöpp. Það kom sér aldeilis vel að Biotherm gaf okkur þessi fínu krem sem eiga að hjálpa slappri húð og grennir og annað krem sem á að losa mann við appelsínuhúð. Ég ber þessi krem nú á mig eins og enginn sé morgundagurinn og finnst ég sjá mun eftir eina viku! Þar sem ég er vísindalega þenkjandi er það þessum kremum mjög til hags að það hafa verið gerðar klínískar rannsóknir sem að sýna fram á árangur þeirra! Þá byrjaði ég líka fyrir um mánuði á að þurrbursta húðina fyrir sturtu og finnst ég sjá mikinn mun, húðin verður fallegri og áferðin sléttari. Ég keypti mér ódýran bursta í Body Shop. 

Núna er vika í næstu vigtun en ég veit að það verða ekki farin sex kíló í viðbót en hlakka mikið til að sjá árangurinn. Það er ótrúlega gaman að finna fyrir því hversu mikið sterkari ég er orðin og vera farin að bæta á þyngdirnar í ræktinni. Áður en ég byrjaði í þessu ferðalagi, skildi ég einfaldlega ekki fólk sem eyddi peningum í einkaþjálfun. Þetta væri nú ekki flókið, mæta bara og gera þetta allt sjálfur. Ég hef alfarið skipt um skoðun en hún Lilja einkaþjálfarinn okkar er yndisleg manneskja og okkur svo góð hvatning. Hún lætur okkur skila matardagbók til sín daglega, svarar alltaf um hæl með annað hvort ábendingu um hvað mætti betur fara og passar sig að hrósa fyrir það sem vel er gert. Hún hvetur okkur áfram á skynsamlegan hátt, hvetur okkur til að hlusta á líkamann en á sama tíma minnir hún okkur á að árangurinn sé tengdur erfiðinu sem við leggjum á okkur. Hún er núna farin að þyngja svolítið hjá okkur æfingarnar sem mér finnst æðislegt! Hún er svo góð fyrirmynd og hvet ég alla sem langar virkilega að ná árangri að hafa samband við hana. Hún hefur sjálf staðið í þeim sporum að vera orðin alltof þung og hefur, að mér finnst. einstaklega góðan skilning á öllu sem þessu við kemur. Hún gladdi mig mjög í vikunni þegar ég spurði hana hversu margar mandarínur væru í ráðlögðum dagskammti hjá okkur, en ég bjóst við því að hún yrði algjör "Grinch" og segði eina, en ég má fá mér nokkrar, því er ég mjög sátt.

Í dag fórum við hinar fræknu fimm upp í Nike búðina þar við vorum verðlaunaðar með flottum íþróttafötum og flottasta sundbol sem ég hef séð frá Speedo! Og viti menn, ég tróð mér í medium!

Mikið hlakka ég til að spóka mig um í nýju ræktarfötunum og taka púlið upp á næsta stig fyrir vigtunina í næstu viku. 

Þangað til næst, farið varlega í smákökurnar og fáið ykkur ráðlagðan dagskammt af mandarínum í staðinn, eins og fjögur til fimm stykki ;)

 


Árangur

Það er fátt meira hvetjandi en þegar maður sér árangur þess sem  maður vinnur að. Í síðustu viku vorum við stelpurnar vigtaðar en þá voru liðnar 4 vikur frá byrjun átaksins. Ég hafði eitthvað smá stolist á vigtina en óraði ekki fyrir hversu vel mér gengi. Ég hafði á þessum tíma misst 6 kg, 40 cm og 4,3% af fitu. Ég var einhvern veginn svo viss um að ég væri ekki búin að missa svo mikið en þarna sést það enn og aftur hvað mataræðið skiptir miklu máli. Ég segi þó ekki að keppnismanneskjan í mér hafi hugsað, æi hefði líkaminn verið 100% og ég getað tekið hreyfinguna alla leið þá hefði ég kannski fengið ennþá betri tölur, en guð minn góður hvað ég er sátt við þetta. 

Ég er komin í þá þyngd sem mér líður svosem ágætlega í, því sjáið þið nú til, ég er ekki að sækjast eftir því að verða þvengmjó.Ég vil bara vera heilbrigð. Mér þykja stelpur með smá hold mjög fínar og vil ekki verða eins og Stína stöng. Ég á þó töluvert eftir til að missa en það kemur bara hægt og rólega. Ég get aftur hneppt að mér buxunum mínum, þó þröngar séu og mikið er það góð tilfinning. Ég þarf orðið að halda í buxnastrenginn á ræktarbuxunum mínum þegar ég hleyp en þær síga bara niður. 

Það sem er svo fáránlegt við þetta allt er að mér finnst þetta bara ekkert mál, svona oftast, segi ekki að sykurpúkinn komi og öskri á mig við og við en honum held ég í skefjum með einhverju sem gefur góða og langvarandi orku. Ég byrja daginn á góðri skál af hafragraut eða chiagraut og bæti við ávöxtum, fæ mér einn ávöxt í millimál, reyni að fá mér eiithhvað próteinríkt í hádeginu, sem er ekki erfitt þar sem ég elska egg, fæ mér eitthvað smá nart og svo hollan kvöldmat. Drekk vatn með þessu öllu, fæ mér gott kaffi og lífrænan dökkan súkkulaðimola með, á kvöldin fæ ég mér svo eitt konfektepli ef mig langar í eitthvað. Þegar maður minnkar svona sykurinn þá er líkaminn ekkert að heimta hann eins mikið. Á laugardögum eftir kl. 17 megum við stelpurnar "svindla". Síðasta laugardag borðaði ég pizzu með hráskinku, rucola og parmesan, fékk mér jólaöl, rauðvín, lindubuff og smá bita af oreoostaköku. Mikið svakalega leið mér illa, kroppurinn fór í klessu við þetta og á sunnudaginn var ég í hálfgerðri sykurþynnku. Ég hugsa að ég taki næsta laugardag ekki svona langt ;)

Þá er það bara að taka næsta mánuð með trompi, ég er á fullu í sjúkraþjálfun og hjá kírópraktor og kroppurinn er allur að koma til. Ég hefði aldrei trúað því fyrir mánuði síðan þegar ég komst ekki sjálf á fætur vegna verkja að mér liði svona vel! Mæli hiklaust með kírópraktorunum í Sporthúsinu, þeir eru að vinna kraftaverk. Þá er hún Alma hjá Sjúkraþjálfarnum sérhæfð í grindaveseni og er að veita mér góða leiðsögn varðandi æfingar sem og gott/vont nudd.

Næst á dagskrá er að bæta við meiri hreyfingu og kaupa mér hlaupabuxur í medium :)


Auðvelt að verða feitur á Íslandi

Jæja, þá er 4 vikan að byrja og ég bíð spennt eftir að sjá nýjar tölur úr mælingu sem verður gerð á morgun. Ég er strax farin að finna mun á fötunum mínum og mínir nánustu sjá mun á mér. Búin að leggja pepsi max á hilluna og það var auðveldara en ég bjóst við!

Ég er að byrja hjá kírópraktor í Sporthúsinu í vikunni og vona svo innilega að ég fari að verða betri í kroppnum. Ég fór til hans Magna á föstudaginn og var tekin röntgenmynd þar sem gallar mínir leyndu sér ekki. Hann hvatti mig til að gera æfingar, fara í sjúkraþjálfun og mæta til sín, hugsa að þetta sé skothelt plan að verkjalausri og betri útgáfu af mér embarassed 

Það sem ég hef veitt gaum á þessu ferðalagi mínu er hvað við Íslendingar erum rosalega miklir neytendur og látum auðveldlega stjórnast af auglýsingum. Þá eru freistingarnar við hvert fótmál, endalausar auglýsingar hvar sem við erum og hvert sem við förum. Úrvalið af skyndibita er endalaust og lúgusjoppurnar út um allt, ég var að reyna að fela mig fyrir þeim um daginn og held að bærinn minn Hafnarfjörður, hljóti að eiga heimsmet í að koma fyrir sem flestum skyndibitastöðum á sem minnstum landskika! Í sjálfsölum við sundlaugar og íþróttamiðstöðvar eru eintómt gos, sætindi og ís! Einhvern vegin finnst mér þetta ekki fara saman.
Það er mjög auðvelt að verða feitur á Íslandi, það er ekki skrýtið að við séum ein feitasta þjóð í heimi. Skammtastærðirnar fara stækkandi, sykri er troðið í allar matvörur og áður en við vitum af erum farin að setja einhvern óþverra í okkur og börnin okkar án þess að gruna það.
Ég hef verið að skoða leirtau að gamni og diskar eru orðnir svo stórir að ef að ég ætlaði mér að kaupa diska eða glös eins og mamma mín og pabbi notuðu þyrfti ég að kaupa mér barnaleirtau. Nú á dögunum birtist frétt á mbl.is þar sem rannsókn ein leiddi það í ljós mín kynslóð á erfiðara með að halda sér í kjörþyngd heldur en kynslóð foreldra minna, þrátt fyrir sömu matarvenjur og hreyfingu. "Ein­stak­ling­ar sem borðuðu sama magn af mat voru 10% þyngri árið 2006 held­ur en jafn­aldr­ar þeirra árið 1971.Þyngd­ar­stjórn­un snýst um fleira held­ur en hversu marg­ar hita­ein­ing­ar maður inn­byrðir á móti því hversu mörg­um hita­ein­ing­um maður síðan eyðir. Lífstíll og um­hverfi, svo sem lyfja­notk­un, streita og erfðir, hafa auk þess áhrif á þyngd fólks".
Þá hafa endalausar rannsóknir birst á undanförnum árum sem að sýna tengingu matarræðis og sjúkdóma eins og sykursýki, krabbameins og hjartasjúkdóma. Þetta er allavega nóg fyrir mig til þess að reyna hugsa betur um hvað ég og fjölskyldan mín setjum ofan í okkur.

6-do-something-today-that-your-future-self-will-thank-you-for
Ég veit að það er auðvelt að segja þetta en þetta snýst allt saman um að byrja bara, bara byrja einhverstaðar! Það sem að gerist þegar að við hreyfum okkur að okkur líður betur, ósjálfrátt fer maður að hugsa betur um það sem að maður borðar en þetta helst allt í hendur. Áður en maður veit af er maður farinn að draga fjölskylduna með sér, í stað þess að fara í bíó og gúffa í sig gotteríi þá er maður farinn að fara í sund. 

Það er ekki nóg að hugsa bara um hvern líðandi dag og vera fastur í núinu þegar kemur að heilsusamlegum lífstíl, maður verður að hugsa til framtíðar. Það getur verið erfitt að grípa inn í þegar vandamálin eru komin og ætla að laga þau eftir á. Því á setning á myndinni hér vel við en reynum öll að gera eitthvað á hverjum degi sem að verður okkur og fólkinu okkar til góðs í framtíðinni, sama hvort það er að taka heilbrigðar ákvarðanir eða sýna náunganum kærleikainnocent 

 

 


Grindarverkir og sykurniðurtúr

Jæja, þá er önnur vika átaksins komin vel á veg og allt gengur svona glimrandi vel eða nánast. Ég er ein af þeim sem geri hlutina alla leið eða bara alls ekki, byrjaði á því að hamast svo að ég gat illa hreyft mig.
Á meðgöngunni var ég með grindargliðnun og hef fundið örlítið fyrir henni eftir fæðingu en eftir fyrstu æfingarnar leið mér eins og ég væri komin 9 mánuði á leið og nýbúin með hálft maraþon. Ég var með svo sáran verk að ég hefði getað grenjað! Þetta var eins og köld gusa fyrir keppnismanneskjuna í mér, að ætla mér að sigra heiminn en kroppurinn sagði bara stopp! Ég var svo mikið ein heima með stelpurnar mínar þessa vikuna, elsku litla ljúfan mín er einstaklega góð og þolinmóð sem betur fer. Það var meiri háttar mál að beygja sig niður eftir henni, skríða á fjórum fótum að næsta hlut til að geta reist mig upp. Ofan á þetta lagðist svo svefnleysi og einhvern veginn hafði ég ekki tíma til að borða og var farin að vera svöng í ofanálag. Mig langaði mest að hætta bara við þetta allt saman, en ég er svo heppinn að eiga yndislegt fólk sem stappaði í mig stálinu og hjálpaði mér að koma hlutunum í rétt horf. Svo næst á dagskrá hjá mér er fyrst og fremst að hlusta á líkamann, fara í sjúkraþjálfun og passa betur upp á sjálfa mig. Það vita það allir að ef að maður sefur illa og borðar ekki nóg þá er allt ómögulegt, tala nú ekki um ef maður finnur líka til. 

Í vikunni fengum við kynningu á vörum frá Lifestream og hlakka ég til að sjá hvort þær geti hjálpað mér með orku og grindarverki :) 

Að halda mataræðinu góðu gengur vel, en þyrfti stundum aukahendur eða nokkra aukatíma í sólarhringinn. Það er verst að ávextir og grænmeti detti ekki í munnbitum án hýðis eða barkar af trjánum :) Eins væri nú yndislegt ef að hollur matur væri ódýrari, skil ekki hvernig 15 egg á Spáni kosta eina evru og hér kosta 10 egg tæpar 700 krónur! Að halda mataræðinu í horfinu krefst smá útsjónarsemi og maður þarf að passa sig að verða ekki svangur því þá er voðinn vís ;) Ég held að ég hafi farið á sykurniðurtúr á degi 10 en þá öskraði hver fruma í kroppnum á sykur, þreytan hefur eflaust spilað þar inn í en ég lét ekki undan. 

Einkaþjálfarinn okkar er yndisleg, hún heitir Lilja Ingvars. Hún bað okkur að skila daglega inn matardagbók en það er virkilega gott að gera það, þá fylgist maður sjálfur svo vel með og verður meðvitaðri um það sem maður borðar. Hún kemur svo með athugasemdir og það sem hún ráðleggur mér er að hætta að drekka vin minn hann Pepsi max. Við Pepsi max eigum að baki langt samband, það samband er lengra en nokkuð samband sem ég hef verið í. Ég hef tekið meðvitaða ákvörðun um að dömpa þessum vini mínum og ætla að gera það á laugardaginn, það verður nú eitthvað, eða það held ég allavega. Ég veit að ég er fíkill í þennan drykk og finnst það eitthvað svo kjánalegt að ég skuli láta stjórnast af gosdrykk! Ég hef lagt ávanabindandi vini á hilluna áður og ætti því alveg að geta þetta!

Það kom mér á óvart hversu margir vissu að ég væri að taka þátt í þessari lífstílsbreytingu og hafa vinir og kunningjar sent mér hvatningarorð sem mér þykir endalaust vænt um og eru mér hvatning. Þá eru kílóin byrjuð að fara og ég sé mun á mér eftir aðeins rúma eina viku! Vá hvað ég hlakka til að halda áfram og ekki skemmir fyrir að vera með yndislegum konum sem eru svo skemmtilegar að ég hlakka til að fara að hitta þær :)

Ég skora á alla vini mína að hætta með mér að drekka sykrað/gervisætu gos. Við gætum kannski stofnað félag og haldið vikulega fundi meðan verstu fráhvörfin ganga yfir, eruð þið memm? :)


Byrjun nýs kafla

Í síðustu viku fékk ég símtal sem ég átti svo innilega ekki von á, ég hafði verið valin í lífstílsbreytingu Smartlands og Sporthúsins! Ég hafði eftir 2-3 sangríu glös á Spáni ákveðið að fylla út umsókn þar sem boðið var upp á handleiðslu að betri lífstíl. Maður slær nú ekki hendi á móti svoleiðis tækifæri en alltaf má gera betur og bæta sig. 

Ég þurfti nú aðeins að hugsa mig um og segja manninum mínum frá því að ég hafði sótt um en ég hafði engum sagt það. Eftir smá rabb við hann og mína nánustu var þetta klappað og klárt, ég fengi aðstoð við pössun og allir hvöttu mig til að taka þátt. Ég er svo sannarlega til í slaginn en ég var á leiðinni út að kaupa mér líkamsræktarkort þegar að Marta María hringdi í mig og tilkynnti mér að ég hafi verið valin. 

Ég á 2 yndislegar stelpur, önnur þeirra er 5 ára og hin varð hálfsárs í gær. Á meðgöngunni slaknaði aðeins á taumnum hjá mér, ég fékk allt í einu sjúklega löngun í ís. Það var þó ekki fyrr en eftir meðgönguna að ég fór að bæta á mig, gönguferðir niður í bæ þar sem ég fékk mér latté og kökusneið með rjóma. Hér var mikið bakað fyrir gesti og gangandi og auðvitað fær maður sér með gestunum sínum og nei, barnið drekkur þetta ekki af mér... Vildi alveg vera ein af þeim, en hef í báðum mínum brjóstagjöfum bætt á mig. Ég er bara sælkeri og svo þykir mér voðalega gott að fá mér rauðvínsglas.
Mig langar bara svo innilega að vera heilbrigð, í góðu formi og líða vel í eigin skinni, fyrst og fremst fyrir mig og svo til að vera fjölskyldunni minni til fyrirmyndar. Það er nú einu sinni þannig að þegar að ég er í sukkinu, þá er meira úrval í brauðkassanum og það njóta allir "góðs" af því í fjölskyldunni. Mig langar að vera besta útgáfan af sjálfri mér og getað hámarkað nýtnina út úr þessu jarðneska lífi :)

Ég hitti hópinn minn í byrjun vikunnar og líst svo sannarlega vel á, við erum þarna 5 konur úr ólíkum áttum sem eigum það sameiginlegt að ætla okkur að verða heilbrigðari. Ég spái því að það eigi eftir að vera mikið fjör hjá okkur og hlakka nú þegar til að fara á æfingu og hitta þær :) Við erum að æfa í Sporthúsinu og það má segja það að ég dauðsé eftir að hafa ekki kynnt mér fleiri líkamsræktarstöðvar en ég hef alltaf æft á þeirri sömu, ekki misskilja mig, sú stöð er æðisleg, en váá! Ég fékk hálfgert víðáttubrjálæði þegar ég kom inn í Sporthúsið, þarna er allt til alls, endalaust úrval og fjölbreytnin svakaleg. Þarna eru líka starfandi sjúkraþjálfarar og kírópraktorar svo maður ætti að geta fengið allra sinna meina bót þarna.

Ég er nú að hefja fjórða sykurlausa daginn minn og viti menn, ég er enn á lífi! Og langar satt besta að segja ekkert í sykur, þessa stundina ;)
Þetta verður góð áskorun og ekki verra að leyfa ykkur að fylgjast með og vonandi að við spariguggurnar eins og Marta kallar okkur, getum orðið til þess að hvetja einhverja til þess að breyta um lífstíl :)

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband