Grindarverkir og sykurniðurtúr

Jæja, þá er önnur vika átaksins komin vel á veg og allt gengur svona glimrandi vel eða nánast. Ég er ein af þeim sem geri hlutina alla leið eða bara alls ekki, byrjaði á því að hamast svo að ég gat illa hreyft mig.
Á meðgöngunni var ég með grindargliðnun og hef fundið örlítið fyrir henni eftir fæðingu en eftir fyrstu æfingarnar leið mér eins og ég væri komin 9 mánuði á leið og nýbúin með hálft maraþon. Ég var með svo sáran verk að ég hefði getað grenjað! Þetta var eins og köld gusa fyrir keppnismanneskjuna í mér, að ætla mér að sigra heiminn en kroppurinn sagði bara stopp! Ég var svo mikið ein heima með stelpurnar mínar þessa vikuna, elsku litla ljúfan mín er einstaklega góð og þolinmóð sem betur fer. Það var meiri háttar mál að beygja sig niður eftir henni, skríða á fjórum fótum að næsta hlut til að geta reist mig upp. Ofan á þetta lagðist svo svefnleysi og einhvern veginn hafði ég ekki tíma til að borða og var farin að vera svöng í ofanálag. Mig langaði mest að hætta bara við þetta allt saman, en ég er svo heppinn að eiga yndislegt fólk sem stappaði í mig stálinu og hjálpaði mér að koma hlutunum í rétt horf. Svo næst á dagskrá hjá mér er fyrst og fremst að hlusta á líkamann, fara í sjúkraþjálfun og passa betur upp á sjálfa mig. Það vita það allir að ef að maður sefur illa og borðar ekki nóg þá er allt ómögulegt, tala nú ekki um ef maður finnur líka til. 

Í vikunni fengum við kynningu á vörum frá Lifestream og hlakka ég til að sjá hvort þær geti hjálpað mér með orku og grindarverki :) 

Að halda mataræðinu góðu gengur vel, en þyrfti stundum aukahendur eða nokkra aukatíma í sólarhringinn. Það er verst að ávextir og grænmeti detti ekki í munnbitum án hýðis eða barkar af trjánum :) Eins væri nú yndislegt ef að hollur matur væri ódýrari, skil ekki hvernig 15 egg á Spáni kosta eina evru og hér kosta 10 egg tæpar 700 krónur! Að halda mataræðinu í horfinu krefst smá útsjónarsemi og maður þarf að passa sig að verða ekki svangur því þá er voðinn vís ;) Ég held að ég hafi farið á sykurniðurtúr á degi 10 en þá öskraði hver fruma í kroppnum á sykur, þreytan hefur eflaust spilað þar inn í en ég lét ekki undan. 

Einkaþjálfarinn okkar er yndisleg, hún heitir Lilja Ingvars. Hún bað okkur að skila daglega inn matardagbók en það er virkilega gott að gera það, þá fylgist maður sjálfur svo vel með og verður meðvitaðri um það sem maður borðar. Hún kemur svo með athugasemdir og það sem hún ráðleggur mér er að hætta að drekka vin minn hann Pepsi max. Við Pepsi max eigum að baki langt samband, það samband er lengra en nokkuð samband sem ég hef verið í. Ég hef tekið meðvitaða ákvörðun um að dömpa þessum vini mínum og ætla að gera það á laugardaginn, það verður nú eitthvað, eða það held ég allavega. Ég veit að ég er fíkill í þennan drykk og finnst það eitthvað svo kjánalegt að ég skuli láta stjórnast af gosdrykk! Ég hef lagt ávanabindandi vini á hilluna áður og ætti því alveg að geta þetta!

Það kom mér á óvart hversu margir vissu að ég væri að taka þátt í þessari lífstílsbreytingu og hafa vinir og kunningjar sent mér hvatningarorð sem mér þykir endalaust vænt um og eru mér hvatning. Þá eru kílóin byrjuð að fara og ég sé mun á mér eftir aðeins rúma eina viku! Vá hvað ég hlakka til að halda áfram og ekki skemmir fyrir að vera með yndislegum konum sem eru svo skemmtilegar að ég hlakka til að fara að hitta þær :)

Ég skora á alla vini mína að hætta með mér að drekka sykrað/gervisætu gos. Við gætum kannski stofnað félag og haldið vikulega fundi meðan verstu fráhvörfin ganga yfir, eruð þið memm? :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband