Árangur

Það er fátt meira hvetjandi en þegar maður sér árangur þess sem  maður vinnur að. Í síðustu viku vorum við stelpurnar vigtaðar en þá voru liðnar 4 vikur frá byrjun átaksins. Ég hafði eitthvað smá stolist á vigtina en óraði ekki fyrir hversu vel mér gengi. Ég hafði á þessum tíma misst 6 kg, 40 cm og 4,3% af fitu. Ég var einhvern veginn svo viss um að ég væri ekki búin að missa svo mikið en þarna sést það enn og aftur hvað mataræðið skiptir miklu máli. Ég segi þó ekki að keppnismanneskjan í mér hafi hugsað, æi hefði líkaminn verið 100% og ég getað tekið hreyfinguna alla leið þá hefði ég kannski fengið ennþá betri tölur, en guð minn góður hvað ég er sátt við þetta. 

Ég er komin í þá þyngd sem mér líður svosem ágætlega í, því sjáið þið nú til, ég er ekki að sækjast eftir því að verða þvengmjó.Ég vil bara vera heilbrigð. Mér þykja stelpur með smá hold mjög fínar og vil ekki verða eins og Stína stöng. Ég á þó töluvert eftir til að missa en það kemur bara hægt og rólega. Ég get aftur hneppt að mér buxunum mínum, þó þröngar séu og mikið er það góð tilfinning. Ég þarf orðið að halda í buxnastrenginn á ræktarbuxunum mínum þegar ég hleyp en þær síga bara niður. 

Það sem er svo fáránlegt við þetta allt er að mér finnst þetta bara ekkert mál, svona oftast, segi ekki að sykurpúkinn komi og öskri á mig við og við en honum held ég í skefjum með einhverju sem gefur góða og langvarandi orku. Ég byrja daginn á góðri skál af hafragraut eða chiagraut og bæti við ávöxtum, fæ mér einn ávöxt í millimál, reyni að fá mér eiithhvað próteinríkt í hádeginu, sem er ekki erfitt þar sem ég elska egg, fæ mér eitthvað smá nart og svo hollan kvöldmat. Drekk vatn með þessu öllu, fæ mér gott kaffi og lífrænan dökkan súkkulaðimola með, á kvöldin fæ ég mér svo eitt konfektepli ef mig langar í eitthvað. Þegar maður minnkar svona sykurinn þá er líkaminn ekkert að heimta hann eins mikið. Á laugardögum eftir kl. 17 megum við stelpurnar "svindla". Síðasta laugardag borðaði ég pizzu með hráskinku, rucola og parmesan, fékk mér jólaöl, rauðvín, lindubuff og smá bita af oreoostaköku. Mikið svakalega leið mér illa, kroppurinn fór í klessu við þetta og á sunnudaginn var ég í hálfgerðri sykurþynnku. Ég hugsa að ég taki næsta laugardag ekki svona langt ;)

Þá er það bara að taka næsta mánuð með trompi, ég er á fullu í sjúkraþjálfun og hjá kírópraktor og kroppurinn er allur að koma til. Ég hefði aldrei trúað því fyrir mánuði síðan þegar ég komst ekki sjálf á fætur vegna verkja að mér liði svona vel! Mæli hiklaust með kírópraktorunum í Sporthúsinu, þeir eru að vinna kraftaverk. Þá er hún Alma hjá Sjúkraþjálfarnum sérhæfð í grindaveseni og er að veita mér góða leiðsögn varðandi æfingar sem og gott/vont nudd.

Næst á dagskrá er að bæta við meiri hreyfingu og kaupa mér hlaupabuxur í medium :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband