Og vegferðin heldur áfram...

Nú eru þeim tólf vikum sem lífstílsbreytingin tók lokið, allavega svona opinberlega í samstarfi við Lilju einkaþjálfara.

Nú stend ég á mínum eigin fótum og er hvergi nærri hætt. Lokamælingar komu vel út og fór ég fram úr mínum markmiðum og er mjög sátt!

Núna skiptir öllu máli að halda rétt á spöðunum, passa sig að falla ekki í gömlu gryfjuna og halda áfram og stefna fast í átt að nýju markmiði. Það skiptir öllu máli að vera með markmið og setja sér raunhæfan tímaramma til að gera hlutina. Það er fátt jafn skemmtilegt og það veitir manni gífurlega ánægju og byr undir vængina þegar að maður nær sínum takmörkum. Ég hafði sett niður á blað kílóatölu og nokkra hluti eins og að komast í splitt, sem ég get, sem og að geta gert klapp armbeygju, get það reyndar bara á hnjánum en er að vinna í að verða eins og íþróttaálfurinn!

Það er svo gaman að finna fyrir því hvað líkaminn er orðinn sterkur og vinnur vel með mér í ræktinni, hann er alveg hættur að "væla" á mig en minnir mig einstaka sinnum á hvar mörkin mín liggja. Þá er það andlega hliðin, hún þarf líka að fylgja á eftir og viðurkenni ég alveg fúslega að ég er búin að vera góð við mig og nota afsakanir eins og snjóþyngsli fyrir því að fara ekki í ræktina. En maður er víst mannlegur og það kemur alveg að því að maður er bara þreyttur á líkama og sál. 

Það sem að hjálpar mér hvað mest þegar að mig vantar að rífa mig upp og koma mér í gang er tónlist! Ójá, elsku tónlistin! Það sem hún getur hjálpað! Hún spilar stórt hlutverk í mínu lífi. Ég spila á píanó og syng og fæ góða útrás við það.

Ég hef bæði í starfi mínu sem hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir hvatt skjólstæðinga til þess að hlusta á tónlist. Rannsóknir á áhrifum tónlistar hafa meðal annars leitt í ljós að hún hækkar streituþröskuld, örvar ímyndunaraflið, eykur slökunartilfinningu og hjálpar til við að hlutleysa neikvæðar tilfinningar. Hún hefur áhrif á öndunartíðni, blóðþrýsting og verkjaupplifun svo eitthvað sé nefnt. Flestir geta tengt tónlist við minningar og tilfinningar, jafnvel fengið okkur til að muna bragð, lykt eða nákvæma litasamsetningu fata frá ákveðinni kvöldstund. 

Þegar ég kem í ræktina er það partur af því að koma mér í gang, að kveikja á tækinu sem ég er á og að finna réttu tónlistina til að halda mér við efnið. Flestar líkamsræktarstöðvar bjóða upp á fría internettengingu og ég nota youtube til að hlusta og horfa á tónlistarmyndbönd meðan að ég æfi. Þá verða 50 mínútna brennslutími á stigvélinni einhvernvegin mikið fljótari að líða. Þar að auki finnst mér ég fá auka kraft þegar ég hlusta á lög sem að eru með góðu tempó-i.

Ég skal deila með ykkur playlistanum mínum í næstu færslu. 

En þangað til ætla ég að deila með ykkur uppáhalds pönnukökunum mínum. Ég geri tvær tegundir, önnur er hversdags og hina nota ég spari, hvet ykkur til að prófa þær! :)

 

Banókókóhafró

1 banani stappaður (helst þroskaður)

Lúkufylli af haframjöl

1 egg (vistvæn auðvitað ;))

1/2 tsk kanill

1 tsk kókosolía

Bananinn er stappaður og hræður saman með egginu, kanil og haframjölinu, kókosolían er brædd á pönnu og henni svo blandað saman við. Steikt á pönnu á meðalháum hita og snúið við þegar það koma loftbólur í gegn. Mér finnst betra að hafa þær frekar þykkar þá haldast þær betur saman. Svo má bæta við kókosolíu á pönnuna ef vantar. Ég borða þessar eintómar en þær eru góðar með smjöri og osti líka :)

 

Hollustupönnsur a la Helga Reynis :)(spari)

3-4 dl létt AB mjólk

2 dl haframjöl

1 dl spelt (fínt) eða hveiti

2 egg

1/2 tsk matarsódi

1/2 tsk salt

1 tsk lyftiduft

1-2 msk smjör

1 tsk vanilludropar

Öllu hrært saman, smjörið brætt á pönnu og hrært svo saman við deigið, steikt á meðal háum hita. Er mjög gott að bæta frosnum bláberjum í uppskriftina. Á mínu heimili borða ég þetta með afþýddum berjum, þetta er líka gott með smjör og osti. Dóttur minni þykir þetta best með hlynsírópi en það má einstaka sinnum á sunnudögum :)  


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband