Erfiður tími framundan...

Það að leggja upp í svona ævintýri krefst viss aga, sjálfsaga sem ég vissi ekki að ég ætti til. Það er svo margt sem  gerist þegar maður fer að hugsa betur um sjálfan sig. Ég vil meina að ég sé mjög andlega heilbrigð ég er glaðvær og hávær, en mér líður svo margfalt betur andlega og líkamlega núna. Ég hef að undanförnu farið í hot yoga, þessir tímar eru yndislegir en uppáhald mitt við þessa tíma er slökunin í lokin. Í þessari slökun er ég þarna, ein með sjálfri mér og reyni útkljá það sem ég þarf að gera upp og ímynda mér að ég geti, eins og yogakennarinn segir, andað frá mér áhyggjum, pirringi eða einhverju því sem getur lagst á sálina. Fyrir vikið finnst mér ég vera endurnærð og sálin léttari, ég veit að þetta hljómar skringilega. Þó ég sé í barneignar"fríi" þá er svo gott að komast burt og hugsa um sjálfa sig þó það sé ekki nema í stutta stund á hverjum degi. 

Lífsstílsbreytingin gengur vel en eins og Lilja einkaþjálfari hefur verið að segja okkur þá lendir maður oft á vegg á þessum tíma. Vegg þar sem vigtin hleypur ekki eins hratt niður, tökin á mataræðinu geta farið að slakna og stundum koma dagar þar sem maður einfaldlega nennir ekki í ræktina. Ég hef átt nokkra svoleiðis daga undanfarið, nenni engan veginn í ræktina og langar bara að borða smákökur með dóttur minni og drekka heitt kakó með extra rjóma! Þessi tími sem núna er að ganga í garð er nefnilega erfiður þegar maður er að huga að næringunni en framundan hjá mér eru endalausir viðburðir þar sem matarsukk og víndrykkja kemur við sögu. Þá snýst þetta allt saman um að taka skynsamlegar ákvarðanir! Það er nefnilega alveg hægt að fara á jólahlaðborð og borða sig pakksaddan án þess að raða í sig hitaeiningaríku sukkfæði. Ég er búin að ákveða það að þar sem ég er að breyta um lífsstíl til frambúðar þá ég ætla að halda mig við það að sleppa sykri og sukki á virkum dögum og leyfa mér aðeins á laugardagskvöldum eða þegar tilefni er til. 

Það að fara í gegnum svona breytingu hefur áhrif á allan líkamann, andlegu hliðina, húðina og  líka fataskápinn. Þar sem ég eignaðist barn fyrir ekki svo löngu síðan, að mér finnst, þá er húðin á maganum á mér ennþá svolítið slöpp. Það kom sér aldeilis vel að Biotherm gaf okkur þessi fínu krem sem eiga að hjálpa slappri húð og grennir og annað krem sem á að losa mann við appelsínuhúð. Ég ber þessi krem nú á mig eins og enginn sé morgundagurinn og finnst ég sjá mun eftir eina viku! Þar sem ég er vísindalega þenkjandi er það þessum kremum mjög til hags að það hafa verið gerðar klínískar rannsóknir sem að sýna fram á árangur þeirra! Þá byrjaði ég líka fyrir um mánuði á að þurrbursta húðina fyrir sturtu og finnst ég sjá mikinn mun, húðin verður fallegri og áferðin sléttari. Ég keypti mér ódýran bursta í Body Shop. 

Núna er vika í næstu vigtun en ég veit að það verða ekki farin sex kíló í viðbót en hlakka mikið til að sjá árangurinn. Það er ótrúlega gaman að finna fyrir því hversu mikið sterkari ég er orðin og vera farin að bæta á þyngdirnar í ræktinni. Áður en ég byrjaði í þessu ferðalagi, skildi ég einfaldlega ekki fólk sem eyddi peningum í einkaþjálfun. Þetta væri nú ekki flókið, mæta bara og gera þetta allt sjálfur. Ég hef alfarið skipt um skoðun en hún Lilja einkaþjálfarinn okkar er yndisleg manneskja og okkur svo góð hvatning. Hún lætur okkur skila matardagbók til sín daglega, svarar alltaf um hæl með annað hvort ábendingu um hvað mætti betur fara og passar sig að hrósa fyrir það sem vel er gert. Hún hvetur okkur áfram á skynsamlegan hátt, hvetur okkur til að hlusta á líkamann en á sama tíma minnir hún okkur á að árangurinn sé tengdur erfiðinu sem við leggjum á okkur. Hún er núna farin að þyngja svolítið hjá okkur æfingarnar sem mér finnst æðislegt! Hún er svo góð fyrirmynd og hvet ég alla sem langar virkilega að ná árangri að hafa samband við hana. Hún hefur sjálf staðið í þeim sporum að vera orðin alltof þung og hefur, að mér finnst. einstaklega góðan skilning á öllu sem þessu við kemur. Hún gladdi mig mjög í vikunni þegar ég spurði hana hversu margar mandarínur væru í ráðlögðum dagskammti hjá okkur, en ég bjóst við því að hún yrði algjör "Grinch" og segði eina, en ég má fá mér nokkrar, því er ég mjög sátt.

Í dag fórum við hinar fræknu fimm upp í Nike búðina þar við vorum verðlaunaðar með flottum íþróttafötum og flottasta sundbol sem ég hef séð frá Speedo! Og viti menn, ég tróð mér í medium!

Mikið hlakka ég til að spóka mig um í nýju ræktarfötunum og taka púlið upp á næsta stig fyrir vigtunina í næstu viku. 

Þangað til næst, farið varlega í smákökurnar og fáið ykkur ráðlagðan dagskammt af mandarínum í staðinn, eins og fjögur til fimm stykki ;)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband