Byrjun nýs kafla

Í síðustu viku fékk ég símtal sem ég átti svo innilega ekki von á, ég hafði verið valin í lífstílsbreytingu Smartlands og Sporthúsins! Ég hafði eftir 2-3 sangríu glös á Spáni ákveðið að fylla út umsókn þar sem boðið var upp á handleiðslu að betri lífstíl. Maður slær nú ekki hendi á móti svoleiðis tækifæri en alltaf má gera betur og bæta sig. 

Ég þurfti nú aðeins að hugsa mig um og segja manninum mínum frá því að ég hafði sótt um en ég hafði engum sagt það. Eftir smá rabb við hann og mína nánustu var þetta klappað og klárt, ég fengi aðstoð við pössun og allir hvöttu mig til að taka þátt. Ég er svo sannarlega til í slaginn en ég var á leiðinni út að kaupa mér líkamsræktarkort þegar að Marta María hringdi í mig og tilkynnti mér að ég hafi verið valin. 

Ég á 2 yndislegar stelpur, önnur þeirra er 5 ára og hin varð hálfsárs í gær. Á meðgöngunni slaknaði aðeins á taumnum hjá mér, ég fékk allt í einu sjúklega löngun í ís. Það var þó ekki fyrr en eftir meðgönguna að ég fór að bæta á mig, gönguferðir niður í bæ þar sem ég fékk mér latté og kökusneið með rjóma. Hér var mikið bakað fyrir gesti og gangandi og auðvitað fær maður sér með gestunum sínum og nei, barnið drekkur þetta ekki af mér... Vildi alveg vera ein af þeim, en hef í báðum mínum brjóstagjöfum bætt á mig. Ég er bara sælkeri og svo þykir mér voðalega gott að fá mér rauðvínsglas.
Mig langar bara svo innilega að vera heilbrigð, í góðu formi og líða vel í eigin skinni, fyrst og fremst fyrir mig og svo til að vera fjölskyldunni minni til fyrirmyndar. Það er nú einu sinni þannig að þegar að ég er í sukkinu, þá er meira úrval í brauðkassanum og það njóta allir "góðs" af því í fjölskyldunni. Mig langar að vera besta útgáfan af sjálfri mér og getað hámarkað nýtnina út úr þessu jarðneska lífi :)

Ég hitti hópinn minn í byrjun vikunnar og líst svo sannarlega vel á, við erum þarna 5 konur úr ólíkum áttum sem eigum það sameiginlegt að ætla okkur að verða heilbrigðari. Ég spái því að það eigi eftir að vera mikið fjör hjá okkur og hlakka nú þegar til að fara á æfingu og hitta þær :) Við erum að æfa í Sporthúsinu og það má segja það að ég dauðsé eftir að hafa ekki kynnt mér fleiri líkamsræktarstöðvar en ég hef alltaf æft á þeirri sömu, ekki misskilja mig, sú stöð er æðisleg, en váá! Ég fékk hálfgert víðáttubrjálæði þegar ég kom inn í Sporthúsið, þarna er allt til alls, endalaust úrval og fjölbreytnin svakaleg. Þarna eru líka starfandi sjúkraþjálfarar og kírópraktorar svo maður ætti að geta fengið allra sinna meina bót þarna.

Ég er nú að hefja fjórða sykurlausa daginn minn og viti menn, ég er enn á lífi! Og langar satt besta að segja ekkert í sykur, þessa stundina ;)
Þetta verður góð áskorun og ekki verra að leyfa ykkur að fylgjast með og vonandi að við spariguggurnar eins og Marta kallar okkur, getum orðið til þess að hvetja einhverja til þess að breyta um lífstíl :)

 


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sex og þrettán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband